Ágrip úr sögu Suðra

Svæðisstjórn Suðurlands um málefni fatlaðra hafði frumkvæði að því að stofna Íþróttafélag fatlaðra á Suðurlandi, undirbjó málið og boðaði til fundar 22. febrúar 1986. Pálína Snorradóttir þáverandi formaður svæðisstjórnar bar fram tillögu um stofnun félagsins og var hún samþykkt.
Tilgangur og markmið félagsins var að efla útivist og íþróttaiðkanir fyrir fatlaða með æfingum, námskeiðum og keppni.
Félagið hét í upphafi Íþróttafélag fatlaðra á Suðurlandi en eftir ábendingu Ólafs Jenssonar þáverandi formanns Íþróttasambands fatlaðra var ákveðið að félagið fengi sérstakt nafn og þann 19. janúar 1991 var nafninu breytt í Íþróttafélagið Suðri.
  Félagssvæði Suðra er sambandssvæði HSK sem er Árnes-og Rangárvallasýsla en vagga starfseminnar er á Selfossi þar sem mestur fjöldinn er og þar fara flestar æfingar fram.
Félagið fékk góðan meðbyr strax frá byrjun. Fyrstu árin tók lögreglan á Selfossi að sér akstur félaga á æfingar og í 5 ár efndu knattspyrnudómarar á Selfossi til firmakeppni í innanhússknattspyrnu til styrktar Suðra, þá veitti Hótel Selfoss aðstöðu til borðtennisæfinga. Félagið hefur einnig notið beinna og óbeinna styrkja frá Selfossbæ og síðar Árborg. Þetta eru örfá dæmi um stuðning frá samfélaginu.

Suðri lét til sín taka varðandi búnað við Sundhöll Selfoss. Keypti árið 1987 sérstakan sundkút ætlaðan fötluðum og fékk síðar tvo slíka kúta að gjöf frá Kiwanisklúbbnum Búrfelli. Árið 1989 gaf Suðri ásamt Styrktarfélagi aldraðra á Selfossi og Þorskahjálp á Suðurlandi færanlega lyftu við innilaugina og baðstól.
Félagið eignaðist fljótlega búninga og var merki félagsins hannað í tilefni af því. Það var listamaðurinn Ólafur Th. Ólafsson sem teiknaði og hannaði merkið endurgjaldslaust sem og viðurkenningarskjöl o.fl. þ.h.

Fyrsta stjórn Íþróttafélagsins Suðra var skipuð eftirfarandi:
Sigríður Sæland
Ágústa Olsen
Hafdís Jakobsdóttir
Varastjórn:
Ásta Guðmundsdóttir
Ragnar Magnússon
Eiríkur Harðarson

Formenn Suðra hafa verið eftirfarandi:
Sigríður Sæland, 1986-1991
Guðný Ingarsdóttir 1991-1996
Svanur Ingvarsson 1996-2006
Þorbjörg Vilhjálmsdóttir 2006-201..

Fyrsta íþróttaæfingin fór fram 12. apríl 1986 í Sundhöll Selfoss, klukkustund í sal (leikfimi, boltameðferð, boccia) og svo var farið í sund. Fyrstu árin var sundið aðalgrein Suðra en síðar bættust fleiri íþróttagreinar við og síðustu ár hafa flestir iðkendur æft boccia.
Fyrsta íþróttamót sem Suðrafélagar tóku þátt í var Íslandsmótið í sundi í apríl 1987 og stóðu þeir sig frábærlega.

Síðustu ár hefur verið boðið upp á æfingar í boccia, sundi, knattspyrnu, frjálsum íþróttum og golfi. Engin aldurstakmörk eru í félaginu og undanfarið hafa verið að koma inn yngri iðkendur sem er fagnaðarefni.

Í gegnum tíðina hefur Suðri eignast marga Íslandsmeistara í boccia, sundi og frjálsum íþróttum auk þess sem Katrín Gróa Sigurðardóttir setti 4 heimsmet í sundi árið 1992.

2 keppendur frá Suðra hafa tekið þátt í Ólympíumótum fatlaðra, Paralympics.
Gunnar Valur Gunnarsson í Seul 1988 og Svanur Ingvarsson í Barcelona 1992.
Þeir kepptu í sundi.

2 keppendur hafa tekið þátt í Ólympíumóti þroskaheftra.
Gunnar Þór Gunnarsson og Katrín Gróa Sigurðardóttir kepptu í sundi í Madrid 1992.

1 keppandi hefur tekið þátt í Vetrarólympíumóti fatlaðra.
Það var Svanur Ingvarsson sem keppti í sleðastjaki í Lillehammer 1994.

Margir félagar í Suðra hafa fengið tækifæri til að fara á Special Olympics og Norrænu barna-og unglingamótin en það eru mót sem ekki krefjast sérstakra lágmarka og eru hugsuð til að gefa öllum tækifæri til að æfa og keppa við jafningja auk þess að efla sjálfstæði og sjálfstraust.